Rockpore
- hjordis15
- Jul 2
- 2 min read
Steypa er mest notaða byggingarefnið á Íslandi og hefur almennt mjög stórt kolefnisfótspor. Steinsteypa er blanda af sementi, vatni, fylliefnum og íblöndunarefnum, og þó að sementið valdi stærsta hluta kolefnislosunar steypu eru fylliefnin einnig stór umhverfisþáttur. Rockpore hefur hannað lausn sem nýtir ólífræna úrgangsstrauma til að búa til nýtt, létt hringrásarfylliefni í steinsteypu (CLWA). Gömul steypa, glerúrgangur og annarsskonar iðnaðarúrgangur er nýtt sem hráefni í CLWA, sem minnkar kolefnisfótspor efnisins. Þegar líftíma steypunnar lýkur má nýta hana aftur í CLWA án þess að eiginleikar hennar rýrni með hverri endurvinnslu.

Betri gæði og meiri hringrás
Fylliefnin eru kúlulaga og rúnuð, sem er mjög eftirsóknarverður eiginleiki fyrir fylliefni og gefur betri vinnanleika í steypu miðað við hefðbundin endurunnin fylliefni úr steypu (RCA), sem veldur oft vandamálum eins og stífleika í meðhöndlun. Einnig má nota steinsteypu með CLWA, eftir að líftími steinsteypunar er búinn, sem hráefni í nýtt CLWA með sömu eiginleikum og áður og þar af leiðandi er um 100% hringrásarvænt efni að ræða. Einnig er styrkleiki CLWA töluvert betri miðað við þéttleika, borið saman við önnur létt fylliefni.
Gagnkvæmur ávinningur mikilvægur
Ein helsta áskorun Rockpore við að skala lausnina á íslenskum markaði hefur verið að samstilla alla hlekki í virðiskeðjunni, þar á meðal framleiðendur úrgangs og viðskiptavini. Þar er lykilatriði að skapa gagnkvæman ávinning ("win-win") fyrir alla þátttakendur keðjunnar. Rockpore er í samskiptum við báða helstu steypuframleiðendur á Íslandi, og er að þróa með þeim leið til að breyta starfsemi þeirra yfir í úrgangslausa ("zero-waste") framleiðslu. Þróunin hefur vakið mikla athygli á Íslandi sem og erlendis, þar sem áhuginn á sjálfbærum lausnum í byggingariðnaði fer hratt vaxandi og framsæknir steinsteypuframleiðendur leita stöðugt að nýjum leiðum til þess að bæta gæði og umhverfisfótspor sitt.
Kolefnisspor og umhverfislegur ávinningur
LCA-greining (A1-A3) gefur til kynna að kolefnisspor Rockpore fylliefna sé um 9 kg CO₂/tonn – að meðtöldum innlendum flutningum hráefna, framleiðsluferli og innflutningi á íblöndunarefnum frá Noregi. Þetta er minna kolefnisfótspor en frá Hekluvikri (28 kg CO₂/tonn) og umtalsvert minna en frá öðrum manngerðum léttum fylliefnum ein og LECA (315 kg CO₂/tonn). Þar sem Rockpore fylliefni eru að fullu endurvinnanleg, sparast jafnframt u.þ.b. 21 kg CO₂/tonn, miðað við kolefnislosun hefðbundinnar förgunar í landfyllingu (EPA viðmið). Þegar tekið er tillit til þessa ávinnings er CLWA kolefnisjákvætt.
Ný framleiðslueining í Helguvík á döfinni
Rockpore hlaut styrk frá Aski, mannvirkjarannsóknarsjóði til þess að þróa verkefnið. Næstu skref í þróun CLWA fela í sér uppbyggingu framleiðslueiningar í Helguvík, innan Grænna Iðngarða. Þróun þessarar einingar fékk styrk frá Tækniþróunarsjóði, í gegnum Vaxtarverkefni. Stefnt er að opnun einingarinnar fyrir 2027.

Bình luận