top of page

Hlöðuberg

  • hjordis15
  • Jul 29
  • 3 min read

Updated: Aug 11

Á Skarðsströnd við Breiðafjörð má finna Hlöðuberg, heimili og vinnustofu listamanns. Verkefnið var unnið af Studio Bua og var frá upphafi áhersla lögð á að halda í einstakan karakter hlöðunnar sem fyrir var og nota áfram það efni sem hægt var að nota til að skapa sjálfbæra og einstaka byggingu. Húsið er byggt á upprunalegum steyptum grunni og veggjum hlöðunnar. Sú nálgun byggðist bæði á umhverfislegum og menningarlegum forsendum, en hlaðan hafði sitt eigið yfirbragð vegna steypunnar sem hafði veðrast og aðlagast umhverfinu, sem og innbyggða eiginleika sem þóttu verðmætir að halda í, auk þess sem það að nýta áfram efni sem fyrir var minnkar kolefnisspor og auðlindanotkun.

Ljósmynd: Marino Thorlacius
Ljósmynd: Marino Thorlacius

Staðbundið efni notað

þar sem mögulegt var

Endurnýtingin náði þó mun lengra en einungis fyrir burðarvirkið. Gamlar hurðir og vaskar voru notaðir áfram. Afgangsefni úr innri klæðningu var notað í handrið og aðrar smíðar. Einnig var textíll sem verkkaupi átti fyrir notaður til að búa til herbergjaskilrúm milli eldhúss og stúdíós. Þegar gluggaop voru skorin út í gömlu veggina var steypan sem féll til endurnýtt í garðhúsgögn og stuðningsveggi utandyra. Þannig hélst efnið í notkun á staðnum í stað þess að verða úrgangur.

Fyrir framkvæmdir
Fyrir framkvæmdir

Áskorun að sannfæra

Talsverðar áskoranir koma upp við það að endurnýta byggingu og byggingarefni á þennan hátt. Það sem reyndist teyminu erfiðast var að sannfæra bæði verkfræðing og verktaka um að slík nálgun væri framkvæmanleg og skynsamleg áður en verkið hófst. Verkfræðingur þurfti að meta ástand steypuveggjanna til að tryggja að þeir

væru í raun nothæfir og kanna hvort og hvernig mætti gera ný op í veggina, ásamt fleiru. Einnig þurfti að lagfæra steypuveggina nokkuð og loka götum svo að dýr kæmust ekki inn í húsið. Ný timburgrind var byggð innan við steypuna og haft bil á milli ásamt því að loftunargöt voru gerð í gamla vegginn, svo raki myndi ekki safnast upp. Á efri hluta steypuveggjarins var hann boltaður við timburgrindina til að tryggja stöðugleika. Viðgerðir á gömlu steypunni voru gerðar af alúð. Steypt var í göt og fyrir stærri göt voru viðgerðirnar skildar eftir sýnilegar sem hluti af sögu byggingarinnar, en yfir viðgerðir sumra af smærri götunum var sandi og smásteinum úr fjörunni komið fyrir til að þær sjáist minna.


Aukið virði í endurnotkun

Uppleggið að verkefninu var að nota eitthvað af því sem fyrir var á jörðinni, vegna þeirra gæða sem fyrri byggingar bjuggu yfir, staðsetningu þeirra og að halda umhverfisfótspori í lágmarki. Fjárhagsleg hagkvæmni var ekki þáttur í ákvörðunartökunni, en hins vegar er niðurstaðan sú að gildi hússins sem menningarverðmæti hefur aukist til muna, sem og að sérstaða þess og karakter er miklu meiri en ef byggt hefði verið alveg nýtt. 

Ljósmynd: Marino Thorlacius
Ljósmynd: Marino Thorlacius

Náttúran ræður ferðinni

Veðrið á Skarðsströnd getur verið ofsakennt og þurfti teymið að takast á við það á byggingartíma sem og að reikna með því í hönnuninni á byggingunni. Það var mikilvægt að ná að loka byggingunni áður en verstu veðrin skullu á. Húsið er vel einangrað og þétt og varmadæla tryggir jafnt hitastig innandyra, jafnvel í hörðustu veðrum. Minni þörf er á upphitun vegna þess hversu vel einangrað það er. 


Verðskulduð athygli

Hlöðuberg hefur hlotið töluverða athygli bæði heima og erlendis. Það var tilnefnt sem Staður ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands árið 2023, vann til Dezeen Award árið 2022, og var tilnefnt í alþjóðlegum viðurkenningum á borð við Architectural Review og Architects Journal. Skrifaðar hafa verið greinar um húsið sem hafa birst víðsvegar, til að mynda í Casabella, Domus og Architectural Digest og svo prýddi það forsíðu Icon Magazine. Húsið hefur komið fyrir í fjölmörgum bókum og kemur út í Iconic Nordic House eftir Thames og Hudson vorið 2026.

Verkefnið hefur einnig leitt til nýrra tækifæra fyrir Studio Bua. Þau vinna nú að svipuðum verkefnum þar sem unnið er með núverandi strúktúra, þar á meðal íbúðarhús á Vestfjörðum og hótel rétt fyrir utan Mosfellsbæ. Auk þess taka þau þátt í deiliskipulagsvinnu í Reykjavík og fleiri arkitektúrverkefnum í Bretlandi.


Þið getið nálgast frekari upplýsingar hér:

Ljósmynd: Marino Thorlacius
Ljósmynd: Marino Thorlacius

 
 
 

Comments


bottom of page