top of page

Elliðaárstöð

  • hjordis15
  • Jul 15
  • 2 min read

Endurnýjun bygginga við Elliðaárstöð – samtal fortíðar og nútíðar

Endurbygging og umbreyting friðaðra bygginga við Elliðaárstöð sýnir hvernig má nálgast viðhaldsverkefni með samtali fortíðar og nútíðar. Gamla rafstöðin var byggð árið 1921 og í kjölfarið var stöðvarstjórahús, smiðja, hlaða og fjós byggt. Árið 1936 reis svo Straumskiptistöðin sem í dag hýsir gestastofu á svæðinu. Eftir að bú lagðist af við Elliðaárvirkjun voru húsin notuð sem geymslur og verkstæði. Nýverið hafa byggingarnar fengið yfirhalningu og nýtt hlutverk sem kaffihús og lifandi menningar- og fræðslusvæði sem veitir innsýn inn í sögu orkunýtingar á Íslandi.

Grafík er áberandi á svæðinu
Grafík er áberandi á svæðinu

Þverfagleg teymi og stöðugt samtal mikilvæg

Hönnunin var í höndum þverfaglegs teymis sem nefnist Terta og samanstendur af arkitektum, vöruhönnuði og grafískum hönnuði. Lögð var áhersla á að halda í upprunalegan karakter húsanna, byggja ofan á sögu þeirra og skapa rými sem miðlar upplýsingum um orku og veitur á lifandi hátt. Mikilvægt var að samtal væri milli hönnuða, verkfræðinga og verkkaupa allt frá upphafi. Í stað þess að hönnuðir leggðu eingöngu fram tillögu sem væri síðan leyst tæknilega síðar, var áhersla lögð á stöðugt samtal sem leiddi til betri, hagkvæmari og fagurfræðilega sterkari niðurstöðu. Verkefnið þurfti að laga sig að fjármagni og voru lausnir oft fundnar í einfaldleika og skapandi endurnýtingu, í stað þess að sækja nýtt hráefni. Þverfaglegt samstarf styrkti verkefnið og með því að nota grafík er hægt að breyta upplifuninni eða ýkja hana, þó að strúktúrinn sé sá sami.


Gamalt nýtt þar sem kostur var

Gömul smiðja og hlaða hýsa nú kaffiús
Gömul smiðja og hlaða hýsa nú kaffiús

Teymið hafði það ekki að markmiði að vera einstakt hringrásarverkefni, heldur gerðist það á náttúrulegan hátt með því að vinna með friðaðar byggingar, takmarkað fjármagn og söguna sem þau vildu segja. Hlaðan var endurgerð í sama formi og áður með stálvirki og timburklæðningu, en haldið var í einstaka upprunalega þætti eins og hlöðuhurð og hlaupakött í mæni hússins. Ný glerbygging tengir húsin saman og myndar skjólgott port þar sem gestir kaffihússins geta notið útiveru, leiks og fræðslu. Í staðinn fyrir að kaupa nýja muni sem passa inn í rýmið var frekar unnið að því að finna samhengi fyrir þá hluti sem fyrir voru, en inni í húsunum má finna ljós og húsgögn úr safni Orkuveitunnar. Næstum öllum húsgögnum sem fyrir voru var fundinn staður. Gamlar borstangir voru notaðar til að afmarka göngustíga og gömul lok af hitaveitustokki er notað sem

yfirborðsefni á torgi. Timbur úr gamalli þrýstivatnspípu er nýtt í göngustíga og setpall á veitutorginu. Lögð var áhersla á að blanda framtíð, nútíð og fortíð en samt alltaf að segja sögu.


Verkefnið stökkpallur fyrir teymið

Menningarvernd, fræðsla og hringrásarhugsun voru meginstef í verkefninu, sem er dæmi þess hvernig má nýta byggingar sem fyrir eru í nýjum tilgangi. Í árangursríkum varðveislu- og hringrásarverkefnum sem þessum skal leggja áherslu á þverfaglega nálgun og gott samtal í öllu ferlinu. Oft koma upp áskoranir þegar farið er að fletta ofan af gömlum lögum og þá eru sveigjanleiki og þolinmæði góðir eiginleikar fyrir teymi að hafa. Verkefnið hefur hlotið þónokkra athygli og útisvæðið fékk Fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar, en þar var eldri gróður varðveittur og áhersla á náttúrulegan efnivið.


Hægt er að lesa meira um verkefnið á Terta.is

ree

 
 
 

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page