top of page

Laugavegur 176

  • hjordis15
  • Jan 7
  • 3 min read

Updated: Jan 9

Á Laugavegi 176 stendur gamla sjónvarpshúsið sem hýsti áður Ríkisútvarpið. Í dag standa þar yfir miklar framkvæmdir á vegum Reita, þar sem stefnt er á að opna nýtt hótel haustið 2026.


Forsagan

Mynd: Reitir
Mynd: Reitir

Endurnotkunaráætlun fyrir húsið var framkvæmd af VSÓ árið 2021 og niðurstaðan lagði mikilvægan grunn að endurnotkun ýmissa þátta í húsinu. Tillögum um varðveislu byggingarhluta var að miklu leyti fylgt, þar sem að tekin var ákvörðun um að halda steyptu burðarvirki að stórum hluta. Þó má nefna að töluvert af burðarvirkinu var sagað og fjarlægt vegna aðlögunar við breytta notkun og sömuleiðis þurfti að ráðast í töluverðar styrkingar á burðarvirkinu eftir niðurstöður úttektar, sem ekki var gert ráð fyrir. Áform um einstaka hluti til endurnotkunar gengu einnig eftir og Efnisveitan miðlaði ýmsu byggingarefni, innréttingum og búnaði áfram. 


Þrátt fyrir endurnotkunaráætlunina var sótt um leyfi fyrir niðurrifi byggingarinnar 2023, sem var hafnað af borgaryfirvöldum vegna gildandi deiliskipulags og vísun til umhverfissjónarmiða, en innbundið kolefni (e. embodied carbon) í steyptum mannvirkjum er mjög hátt. Ástæða umsóknarinnar var sú að kostnaður við niðurrif og nýbyggingu var metin lægri en endurnotkun byggingarinnar. Eftir höfnunina var farið í að hanna byggingu sem fylgdi endurnotkunaráætlunni eins og kostur var. Lífsferilsgreining var gerð 2024, þegar hönnun var langt komin og engar stórvægilegar breytingar hafa verið gerðar á hönnun eftir það. Helstu niðurstöður greiningarinnar var að kolefnislosun lífsferils hússins er metið 4060 tonn koltvísýringsígilda og þar af 290 kg/m2 koltvísýringsígilda innbundið. 


Þættir sem draga úr notkun auðlinda

Hótelið er hannað og byggt samkvæmt vottunarkerfinu BREEAM New Construction og fylgir þar af leiðandi alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum um sjálfbærni. 


Helstu sjálfbærniþættir í hönnun og rekstri: 


  • Þrefalt gler fyrir minni orkunotkun og betri hljóðvist

  • Lausnir sem spara vatn og orku í rekstri

  • Heilnæm innivist og góð náttúruleg birta

  • Ekki opnanleg fög til að koma í veg fyrir óþarfa varmatap

  • Forsmíðaðar einingar mikið notaðar bæði í burðarvirki og við innanhúss. Baðherbergin eru til að mynda að mestum hluta forsmíðaðar einingar frá Danmörku. Forsmíðaðar einingar eru smíðaðar í verkstæðum þar sem stöðluð framleiðsla tryggir minni sóun í för með sér, samanborið við þegar hlutir eru smíðaðir á staðnum. 

  • Stál í burðarvirki og CLT-einingar í lokun útveggja eru tveir þættir sem drógu úr notkun steypu. 

  • Þurrsteypa í gólf, í stað anedrýt ílögn og flots ofan á, sparar um 6 þúsund lítra af vatni fyrir hverja hæð. 


Áskoranir tengdar hringrásarlausnum

Verkefnið hefur ekki gengið alveg hnökralaust og er ýmislegt sem má læra af reynslunni. Til dæmis:


  1. Forsmíðaðar einingar voru nýttar að hluta til, til að minnka sóun. Hins vegar urðu einingarnar fyrir rakaskemmdum við flutning og geymslu, þar sem þeim var ekki pakkað inn á þann hátt að þær þoli íslenska veðráttu. Lærdómurinn af þessu er að ganga þarf betur frá slíkum einingum fyrir flutning og skoða hverja og eina vel áður en þeim er landað. Einnig er mikilvægt að geymslustaður sé í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda.

     

  2. Önnur áskorun var að byggingin og burðarvirkið voru ekki í samræmi við fyrirliggjandi teikningar af húsinu og þar af leiðandi þurfti að rífa meira af húsinu en gert var ráð fyrir í byrjun. Þar af leiðandi þurfti að styrkja burðarvirkið mikið með steyptum þáttum sem fól í sér aukinn kostnað og lengri byggingartíma. 


Í verkefninu eru notaðar fjölbreyttar lausnir til að draga úr umhverfisáhrifum byggingarinnar. Hringrásarlausnir á borð við endurnotkunaráætlun vega þungt í þeirri vegferð. Með þessu verkefni er hægt að sýna fram á að endurnotkun bygginga er raunverulegur og spennandi möguleiki, þar sem umhverfisvernd og byggðasaga haldast hönd í hönd. Þar sem sveitarfélög eru farin að setja sér loftslagsmarkmið og hafa í sumum tilfellum bannað niðurrif eldri bygginga út frá umhverfissjónarmiðum, þá er mikilvægt fyrir byggingaraðila að aðlagast og læra af þeim sem eru að gera vel.

Mynd: Reitir
Mynd: Reitir

 
 
 

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page