Little Finlandia
- hjordis15
- Aug 19
- 1 min read
Litla Finlandia í Helsinki er brautryðjandi dæmi um hringrásarhagkerfi í byggingargeiranum, þar sem unnið er með tímabundna notkun, umhverfisvænni efni og möguleika á endurnotkun til lengri tíma. Þáverandi akritektúrneminn Jaakko Torivnen hannaði Little Finlandia og teymi nemendanna Elli Wendelin, Havu Järvelä, Stine Pedersen ásamt Jaakko Torvinen þróuðu hönnunina áfram í samstarfi við Aalto-háskólann, Helsinkiborgi og Finlandia Hall, sem tímabundinn staðgengill á meðan endurbætur á Finlandia Hall stóðu yfir.

Byggingin, sem er um 2.700 fermetrar, notar 95 heil og óunnin furutré með greinum sem burðarstólpa. Trén voru háþrýstiþvegin í staðinn fyrir að vera efnameðhöndluð, sem lágmarkar vinnslu á þeim og varðveitir náttúrulegt form þeirra. Þessi meðferð losar minni koltvísýring samanborið við hefðbundnar timburvörur og á sama tíma undirstrikar hún fegurð og verkfræðilega getu náttúrunnar sjálfrar.
Byggingin var hönnuð frá upphafi til að hægt sé að taka hana í sundur og endurnýta á öðrum stað í öðrum tilgangi. Hún er smíðuð úr forsmíðuðum tréeiningum, þar á meðal CLT-plötum, viðar LVL-holþakþáttum og límtrébjálkum. Samskeyti og sýnileg tæknileg kerfi gera niðurrif einfalt. Þegar endurbótum á Finlandia-höllinni lauk var byggingin færð og er áætlun að nota sem skóla, með áætlaðan líftíma upp á 30 til 50 ár.

Hönnunin er samspil mínímalisma og lífræns forms: einfalt rétthyrnt skipulag vegur upp á móti óregluleika heilla trjánna. Innri salir og sveigjanleg rými gera kleift að nota húsið á fjölbreyttan hátt, allt frá tónleikum til málstofa, og styðja bæði núverandi virkni og aðlögunarhæfni í framtíðinni. Little Finlandia sýnir hvernig byggingarlist getur tileinkað sér markmið hringrásarhagkerfisins með umhverfisvænu efnisvali, endurnotkun efna og sveigjanlegri hönnun.




Comments