Kulma 21
- hjordis15
- Aug 19
- 2 min read
Updated: Aug 20
Í miðborg Helsinki má finna bygginguna Kulma21, sem fór nýlega í gegnum talsverða uppfærslu. Byggingin var upphaflega tekin í notkun 1941 og hefur hýst ýmsa starfsemi yfir árin, til að mynda nemendaráð Helsinki School of Business og skrifstofur.

Í nýlegum endurbótum var sérstök áhersla lögð á að varðveita og endurvekja sögulegt yfirbragð hússins, með tilliti til upprunalegrar hönnunar og byggingareinkenna frá þeim tíma sem hún er fyrst byggð. Arkitektar hjá Tengbom, stofunnar sem sá um hönnun endurbótanna, segja það hluta endurbótaverkefna á eldri byggingum, að draga fram þætti sem einkenndu byggingar frá þeim áratugi. Meðfram endurbótunum var byggingin einnig uppfærð til þess að mæta kröfum dagsins í dag, varðandi tæknilega og umhverfislega þætti.

Endurbætur gamalla húsa eins og Kulma21 geta falið í sér flóknar áskoranir, sérstaklega þegar kemur að því að vinna með gömul byggingarefni. Á síðustu öld voru oft notuð efni og byggingaraðferðir sem samræmast illa kröfum nútímans, til að mynda varðandi öryggi byggingarefna, loftgæði innanhúss og svo framvegis. Í rauninni hefur hver áratugur sínar áskoranir sem er mikilvægt að taka til greina þegar farið er í slík endurbótaverkefni og vera upplýst um mögulegar hættur. Til dæmis var korkur notaður sem einangrun á milli múrsteins- eða steyptra veggja á fimmta áratugnum og asbest og kreósót notað fram á sjötta og sjöunda áratuginn, og í einhverjum tilfellum jafnvel lengur. Stærsta áskorunin í þessu tilfelli var lofthæðin of lág, en það samsvarar ekki kröfum sem gerðar eru til húsnæðis í dag. Þverfaglegt teymi sérfræðinga vann við að leysa úr vandanum, sem fól meðal annars í sér að undirgólf (e. subflooring) var fjarlægt, koma fyrir fyrirferðarlitu loftræstikerfi og á neðstu hæð var grafið niður til þess að koma fyrir þjónustu eins og hjólastæðum og líkamsrækt.

Samkvæmt arkitektunum sem unnu að verkefninu er könnun á sögu hússins (e. history survey) einn af þeim þáttum sem er nær alltaf hluti af árangursríkum endurbótaverkefnum. Könnunin er sérstaklega mikilvægur grunnur þegar unnið er með sögulega mikilvægar byggingar, svo sem þegar er um að ræða byggingar sem nota einhverskonar verndar, sem var tilfellið með Kulma21. Oft þurfa endurbótaverkefni deiliskipulagsbreytingu til þess að mega fara fram, sér í lagi þegar nýting byggingarnar mun breytast eftir endurbætur. Þá getur verið að yfirvöld krefjist niðurstöður slíkrar könnunar með beiðni um deiliskipulagsbreytingu.
Kulma21 er dæmi þess að endurbótaverkefni geta falið í sér víðtækan umhverfislegan ávinning, samanborið við það að byggja nýtt. Kolefnislosun endurbótanna var 44% lægri en ef um nýbyggingu væri að ræða. Þá sýnir lífsferilsgreining að yfir 50 ára tímabil er uppsafnað kolefnisfótspor Kulma21 um 15% lægra en ef það hefði verið byggð samsvarandi ný bygging. Þar af leiðandi er verkefnið ekki einungis vel heppnað menningarvarðveisluverkefni, heldur eru umhverfisáhrifin einnig talsverð.
Comments